Árgjöld í GOS lækka

Ársgjöld í Golfklúbbi Selfossi lækka á milli ára og íbúum utan Árnessýslu verður boðið upp á fjaraðild að klúbbnum.

Þetta var samþykkt á aðalfundi klúbbsins í lok janúar. Ársgjald lækkar úr 44.900 í 43.900 og hjónagjald fer úr 67.900 í 65.000. Einnig verður afsláttur fyrir hjón eða einstaklinga með börn. Systkinaafsláttur er af árgjöldum og æfingagjöldum og íbúum utan Árnessýslu verður boðin fjaraðild að klúbbnum fyrir 18.900 krónur.

“Þetta er kannski ekki mikil lækkun en flestir klúbbar eru að hækka gjöldin hjá sér um 5% eða meira. Við ákváðum að lækka og minnum á það um leið að golf er frábær útivist fyrir fjölskylduna. Það er allt annað að hækka í þjóðfélaginu og við viljum koma aðeins til móts við fjölskyldurnar,” sagði Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS, í samtali við sunnlenska.is.

Á aðalfundinum kom fram að gríðarleg aukning varð í barna- og unglingastarfi á árinu 2010. Fjöldi krakka á æfingum fór úr 20 árið 2009 í 70 árið 2010 og Hlynur segir stefnuna að auka fjöldann enn frekar í sumar. Meiri áhersla verður lögð á barna- og unglingastarfið með faglærðum golfkennara, fleiri mótum og æfingum.

Að venju voru veitt verðlaun á aðalfundinum. Anton Ingi Arnarsson fékk framfarabikarinn en það er bikar fyrir mestu lækkun á forgjöf en Anton lækkaði um heil 11,7 högg árið 2010. Þá var Bergur Sverrisson valinn kylfingur ársins. Alda Sigurðardóttir fékk afhentan bikar holukeppnismeistara GOS 2010.

Stjórn GOS var endurkjörin á fundinum og fékk hún rússneska kosningu með miklu lófaklappi. Bárður Guðmundarson er formaður GOS en aðrir í stjórn eru Jónbjörg Kjartansdóttir, Halldór Morthens, Pétur Hjaltason og Jens Uwe Friðriksson.

Næst á dagskrá hjá Golfklúbbnum er þorrablót og verður það haldið 12. febrúar nk.