Árgjöld GÞ þau lægstu á 18 holu velli

Rúmlega þriggja milljón króna hagnaður var á rekstri Golfklúbbs Þorlákshafnar á síðasta ári. Hagnaður klúbbsins hefur aldrei verið meiri þrátt fyrir að árgjöld klúbbsins séu þau lægstu á 18 holu velli á Íslandi.

Ein af megin ástæðunum fyrir þessum hagnaði er aukinn fjöldi höfuðborgarbúa sem sækja völlinn heim á hverju sumri.

Aðalfundur GÞ var haldinn í síðustu viku með hefðbundnu sniði. Guðmundur K. Baldursson formaður GÞ fór yfir skýrslu stjórnar og ársreikning klúbbsins og mikil ánægja á meðal fundargesta var með skýrsluna og ársreikninginn.

Aðeins ein breyting var á stjórn klúbbsins, en Hákon Hjartarson gaf ekki kost á sér sem varamaður og í hans stað var Óskar Logi Sigurðsson kosinn.

Árgjöld voru ákveðin þau sömu og á síðasta ári, en árgjöldin er þau lægstu sem þekkjast á Íslandi og sérstaka athygli vekur lágt nýliðagjald. Nýliðar borga aðeins 46 þúsund krónur fyrir fyrstu tvö árin í klúbbnum.

Guðlaugur Þ. Sveinsson, fyrrum formaður GÞ hlaut heiðursviðurkenningu golfklúbbsins fyrir árið 2014, en ákveðið var að veita honum viðurkenninguna fyrir frábært starf í þágu klúbbsins mörg undanfarin ár.

Unnið hefur verið að breytingum á vellinum að undanförnu og áfram verður unnið næstu tvö sumur að þeim breytingum sem í gangi eru vegna aflagningar tveggja brauta. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að ljúka sem mest af áfanga 1 á þessu ári.

Fyrri greinSendir eldri borgarana á Örkina
Næsta greinÞrettán umferðaróhöpp og slys um helgina