Hamar vann annan sigurinn í röð í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld, þegar Kría kom í heimsókn á Grýluvöll.
Hvergerðingar voru mun beittari á upphafsmínútunum og Argentínumennirnir í liði Hamars sáu um markaskorunina.
Rodrigo Depetris kom þeim yfir á 7. mínútu með marki úr hornspyrnu og hann fiskaði svo víti á 20. mínútu sem Guido Rancez skoraði úr af miklu öryggi. Depetris var svo aftur á ferðinni á 27. mínútu og breytti stöðunni í 3-0. Rancez átti lokaorðið í fyrri hálfleik en hann skoraði fjórða mark Hamars á 39. mínútu.
Staðan var 4-0 í leikhléi en seinni hálfleikurinn var öllu rólegri. Kría skoraði sárabótarmark á 77. mínútu og lokatölur urðu 4-1.
Þrátt fyrir tvo sigra í röð eru Hvergerðingar ennþá langneðstir í deildinni og þurfa kraftaverk til að halda sæti sínu í deildinni. Eins og taflan er núna þurfa þeir að minnsta kosti að vinna tvo af síðustu þremur leikjum sínum og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum.
