Árborgarar úr leik

Árborg er úr leik í úrslitakeppni 4. deildar karla eftir 5-1 tap gegn Vængjum Júpíters á útivelli í kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli þannig að Vængirnir sigruðu samanlagt 6-2.

Upphafsmínútur leiksins voru mjög fjörugar, Vængirnir komust yfir á 4. mínútu eftir hornspyrnu og klafs í teignum en Arnar Freyr Óskarsson jafnaði fyrir Árborg á 12. mínútu með góðu skoti utan teigs.

Heimamenn náðu forystunni aftur á 16. mínútu, aftur eftir klafs uppúr hornspyrnu. Árborg var meira með boltann í kjölfarið en það voru heimamenn sem gerðu nánast út um leikinn með tveimur mörkum á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks.

Staðan var 4-1 í hálfleik og Vængirnir bættu við fimmta markinu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þrátt fyrir að vera meira með boltann í seinni hálfleik tókst Árborgurum ekki að minnka muninn þrátt fyrir nokkur ágæt færi.

Árborg er því úr leik í úrslitakeppninni en Vængirnir mæta Augnabliki í einvígi um sæti í 3. deild.

Fyrri greinNorræna skólahlaupið sett í Sunnulækjarskóla
Næsta greinSelfoss frestaði sigurgleði Blika