Árborgarar stálu stigi gegn Sindra

Knattspyrnufélag Árborgar og Sindri frá Hornafirði skildu jöfn, 1-1, þegar keppni í 3. deild karla í knattspyrnu hófst í dag.

Sindramenn voru sterkari í fyrri hálfleik og Árborgarar voru greinilega þreyttir eftir 120 mínútna bikarleik á miðvikudagskvöld. Fyrri hálfleikur var markalaus en gestirnir mun líklegri og stjórnuðu þeir leiknum á löngum köflum.

Leikurinn jafnaðist nokkuð í síðari hálfleik og gerðu bæði lið sig líkleg til að skora. Sindramenn voru fyrri til þegar sóknarmaður þeirra slapp einn innfyrir á 67. mínútu og renndi boltanum framhjá Aroni Leifssyni í marki Árborgar.

Eftir markið brýndu Árborgarar sig í sókninni en gekk illa að binda sannfærandi lokahnúta á sóknarlotur sínar. Þeir uppskáru síðan vítaspyrnu á 86. mínútu þegar varnarmaður Sindra setti olnbogann í andlitið á Kjartani Kjartanssyni innan vítateigs. Kjartan fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Lengra komust liðin ekki og lokatölur urðu 1-1.