Árborgarar ósigraðir á toppnum

Árborg vann Mídas á útivelli og Stokkseyri gerði jafntefli við Ými í leikjum kvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu. Árborg er í toppsæti A-riðilsins.

Daníel Ingi Birgisson og Sindri Rúnarsson komu Árborg í 0-2 á fyrsta korterinu gegn Mídasi og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Mídasarmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og minnkuðu muninn á 69. mínútu. Árborg svaraði hins vegar með tveimur mörkum frá Tómasi Kjartanssyni og Magnúsi Helga Sigurðssyni, 1-4 á 88. mínútu. Mídas minnkaði muninn í uppbótartíma og lokatölur leiksins urðu 2-4.

Það var mikið fjör á Stokkseyri þar sem heimamenn tóku á móti Ými í galopnum og spennandi leik. Þórhallur Aron Másson kom Stokkseyri yfir á 20. mínútu en Ýmismenn jöfnuðu á 43. mínútu úr vafasamri vítaspyrnu. Eyþór Gunnarsson var hins vegar fljótur að koma Stokkseyri yfir aftur og staðan var 2-1 í hálfleik.

Ýmir jafnaði snemma í síðari hálfleik en Örvar Hugason kom Stokkseyri í 3-2 með stórglæsilegu aukaspyrnumarki á 71. mínútu. Ýmismenn fengu svo aðra vítaspyrnu á 84. mínútu og jöfnuðu úr henni. Stokkseyringar voru nær því að skora í lokin en tókst ekki, svo að lokatölur urðu 3-3.

Eftir þrjár umferðir er Árborg á toppi A-riðils með fullt hús stiga, 9 stig. Stokkseyringar náðu í sitt fyrsta stig í kvöld og sitja í 6. sæti.

Fyrri greinHrafnhildur Inga sýnir í Gerðubergi
Næsta greinEldur í sumarhúsi í Tungufellsdal