Árborgarar kjöldregnir í Eyjum

Árborgarar fengu rassskellingu þegar þeir heimsóttu KFS til Vestmannaeyja í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld. KFS sigraði 7-2.

Leikurinn var í jafnvægi í upphafi og Árborgarar líklegir til afreka. Eyjamenn komust yfir á 22. mínútu með marki eftir hornspyrnu og tíu mínútum síðar juku þeir forskotið í 2-0. Kjartan Atli Kjartansson minnkaði muninn strax í 2-1 með marki úr vítaspyrnu en á tveimur síðustu mínútum fyrri hálfleiks skoruðu Eyjamenn tvö mörk, bæði eftir hornspyrnur og staðan var 4-1 í hálfleik.

KFS var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og juku þeir forskot sitt í 6-1 á fjórum mínútum snemma í seinni hálfleik. Eftir það var leikurinn í jafnvægi en áður en yfir lauk bættu liðin við sitthvoru markinu og aftur var Kjartan Atli á ferðinni fyrir Árborg.

Þetta var fyrsta tap Árborgar í deildinni í sumar en liðið er enn í 4. sæti A-riðils með 5 stig. Árborg mun missa annað hvort Létti eða Ægi uppfyrir sig í kvöld en þau lið mætast í Þorlákshöfn kl. 20.

Fyrri greinMiðasalan í fullum gangi
Næsta greinSelfoss fékk stóran skell