Árborgarar gefa Abel sektarsjóðinn

Nýverið gaf knattspyrnudeild ÍBV út yfirlýsingu þess efnis að leikmaður þeirra Abel Dhaira myndi ekki leika með þeim á komandi sumri vegna alvarlegra veikinda sem að hann glímir nú við.

Abel var greindur með krabbamein í kviðarholi og á fyrir höndum erfiða baráttu.

Hafin er söfnun til styrktar Abel og hafa meistaraflokkar nokkurra knattspyrnufélaga ákveðið að gefa sektarsjóði sína til styrktar leikmanninum. Leikmenn Knattspyrnufélags Árborgar hafa ákveðið að leggja þannig einnig sitt af mörkum og skora á leikmenn annarra liða að gera slíkt hið sama.

„Eyjamenn sýndu af sér ótrúlega góðmennsku er þeir fluttu Abel til Íslands frá heimalandi hans Úganda í þeirri von að heilbrigðisþjónustan hér á landi geti aukið líkur hans á því að vinna sigur í þessari baráttu. Það er mat okkar að á tímum sem þessum eigi knattspyrnan í heild sinni að standa saman og hjálpa Abel í baráttunni. Knattspyrna er íþrótt tilfinninga og viljum við allir spila til sigurs. Í tilviki Abel geta allir lagst á eitt og hjálpa honum í þeirri baráttu sem hann nú stendur frammi fyrir með von um að hann sigri. Að lokum viljum við koma sérstaklega á framfæri hrósi til Eyjamanna, Grindvíkinga sem og allra þeirra sem heyja þessa baráttu með Abel,“ segir í tilkynningu frá leikmönnum Árborgar undir yfirskriftinni Sækjum saman til sigurs.

Þeir sem vilja taka þátt í söfnuninni fyrir Abel geta hringt í neðangreind númer eða lagt beint inn á söfnunarreikning 582-14-602628 kt. 680197-2029.

9071010 – 1000kr
9071020 – 2000kr
9071030 – 3000kr

Fyrri greinHálu flísarnar fjarlægðar
Næsta greinAnnar fanginn fundinn