Árborgarar gáfu Létti sigurmarkið

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði sínum fyrsta leik í 4. deild karla í kvöld þegar liðið sótti Létti heim á ÍR-völlinn í Breiðholti. Sigurmark leiksins var heldur betur dramatískt.

Tómas Hassing kom Árborg yfir á 10. mínútu leiksins en heimamenn jöfnuðu fimmtán mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Á 10. mínútu síðari hálfleiks komust Léttismenn yfir og héldu forystunni allt þar til í uppbótartíma. Þá tók heldur betur við dramatískur kafli.

Þegar rúmar fimm mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma spyrntu Léttismenn boltanum útaf til þess að sinna meiddum leikmanni. Árborgarar skiluðu boltanum með löngu innkasti og í kjölfarið skalla Léttismenn boltann frá marki. Hartmann Antonsson nær þá til knattarins og klippir hann með góðu skoti í fjærhornið. 2-2.

Léttismenn töldu að Árborgarar hefðu ekki haft í heiðri heiðursmannasamkomulag sem haft er uppi um að skila knettinum til mótherja þegar spyrnt er útaf vegna meiðsla og allt varð vitlaust á vellinum.

Það varð úr að Árborgarar leyfðu Léttismönnum að taka miðju og skokka fram völlinn með boltann til þess að skora sigurmarkið. Þetta mark gæti reynst Árborgurum dýrkeypt því það galopnar toppbaráttuna í A-riðlinum.

„Nokkrir af okkar leikmönnum snéru baki í markmanninn þeirra þegar hann kastaði honum út af. Við grýttum honum löngum inn í teig og skorum,“ sagði Eiríkur Raphael Elvy, leikmaður Árborgar við fótbolta.net í kvöld.

„Þegar strákarnir byrjuðu að fagna hljóp ég til Guðjóns [Hálfdánarsonar] þjálfara og segi honum frá atvikinu. Við tökum ákvörðun um að gefa þeim frítt mark. Ég persónulega vil ekki skora svona mörk,“ sagði Eiríkur.

Þrátt fyrir tapið heldur Árborg toppsætinu með 22 stig en bæði ÍH og Hamar eiga leik til góða en liðin eru í 2. og 3. sæti með 19 og 18 stig. Léttir eygir ennþá möguleika á sæti í úrslitakeppninni með 15 stig í 4. sæti.

Fyrri grein„Þetta var stöngin inn í kvöld“
Næsta greinBjörgvin byrjar vel á heimsleikunum