Árborgarar flengdir í Fossvoginum

Búningastjóri Árborgar þarf að nota aukaskammt af þvottaefni eftir leik kvöldsins en Árborg tapaði 6-1 þegar liðið mætti Berserkjum í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu.

Þar með er endanlega ljóst að Árborg mun leika í hinni nýju 4. deild á næsta ári en fyrirkomulagi deildarkeppninnar verður breytt að loknu tímabilinu 2012.

Þrátt fyrir ótrúlegar lokatölur í kvöld voru Árborgarar með boltann meirihluta leiksins en Berserkir lágu aftarlega og sóttu hratt og það var eitthvað sem Árborg réð ekki við. Fimm marka Berserkja komu úr skyndisóknum þar sem boltanum var rennt í netið af markteignum.

Berserkir komust yfir úr skyndisókn á 9. mínútu en fjórum mínútum síðar jafnaði Arnar Freyr Óskarsson metin fyrir Árborg með góðu skallamarki. Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Berserkir komust í 2-1 með marki úr vítaspyrnu á 38. mínútu eftir að Árni Páll Hafþórsson braut klaufalega af sér í teignum.

Árborg var meira með boltann í seinni hálfleik en Berserkir kláruðu leikinn með þremur hraðaupphlaupum á fimmtán mínútna kafla um miðjan hálfleikinn. Eftir það fjaraði leikurinn út en heimamenn bættu sjötta markinu við í uppbótartíma.

Árborg er enn í 6. sæti A-riðils með 14 stig.