Árborgarar einráðir á vellinum

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði eitt marka Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar vann mikilvægan sigur á RB í toppbaráttu A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Það er óhætt að segja að Árborg hafi ráðið lögum og lofum stærstan hluta leiksins en þeir yfirspiluðu RB fyrstu 75. mínútur leiksins. Mörkin komu þó ekki á færibandi og Árborg hafði átt þrjú skot í tréverkið áður en Magnús Hilmar Viktorsson kom þeim yfir á 33. mínútu. 

Staðan var 1-0 í hálfleik en aðeins voru tvær mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Magnús Ingi Einarsson slapp innfyrir og kom Árborg í 2-0. Á 63. mínútu bætti Ingi Rafn Ingibergsson við marki og fjórum mínútum síðar stangaði frændi hans, Haukur Ingi Gunnarsson, boltann í netið.

RB sótti í sig veðrið á lokakaflanum en fékk ekki mörg færi. Þeim tókst þó að minnka muninn í 4-1 á 82. mínútu þegar boltinn fór af Pétri Loga Péturssyni, markverði Árborgar, í netið eftir hornspyrnu.

Með sigrinum fór Árborg upp í 2. sæti riðilsins með 7 stig en RB er í 3. sæti með 6 stig. Næsti leikur Árborgar er á útivelli gegn toppliði Kríu næstkomandi mánudagskvöld.

Fyrri greinÞórsarar undir í einvíginu
Næsta grein„Átti ekki alveg von á þessu“