Árborgarar áfram taplausir – Stokkseyri fékk skell

Árborg heldur toppsætinu í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu með sigri í kvöld. Stokkseyri fékk stóran skell á heimavelli.

Árborg heimsótti Ými í Kópavoginn og heimamenn komust yfir á 14. mínútu. Tómas Kjartansson jafnaði hins vegar, þremur mínútum síðar og Hartmann Antonsson tryggði Árborg 1-2 forskot í hálfleik með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Magnús Helgi Sigurðsson jók forskot Árborgara á 51. mínútu en Ýmismenn minnkuðu muninn sex mínútum síðar. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og Árborgarar eru áfram ósigraðir í toppsæti riðilsins.

Á Stokkseyri fengu heimamenn Berserki í heimsókn. Gestirnir voru komnir í 0-2 eftir rúmar tíu mínútur en á 16. mínútu minnkaði Eyþór Gunnarsson muninn fyrir Stokkseyri. Nær komust þeir þó ekki því Berserkir röðuðu inn mörkunum, leiddu 1-5 í hálfleik og lokatölur urðu 1-9.

Árborg hefur 12 stig í toppsæti riðilsins, þar á eftir koma Berserkir með 10 stig, þá Ýmismenn með 9 stig og Stokkseyri í 4. sætinu með 7 stig.

Fyrri grein„Flott frammistaða“
Næsta greinSkógarganga í tilefni sameiningar