Árborg vann Suðurlandsslaginn – Dramatík hjá Hamri

Gunnar Fannberg Jónasson kom Árborgurum á bragðið í kvöld og hér reynir Helgi Valdimar Sigurðsson að stöðva hann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann nágrannaslaginn gegn Uppsveitum í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld og Hamar vann dramatískan sigur á Úlfunum.

Árborg og Uppsveitir mættust á gervigrasinu á Selfossi. Eftir hörkuspretti hjá báðum liðum framan af leik afgreiddi Árborg leikinn á rúmlega tíu mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn. Gunnar Fannberg Jónasson kom þeim yfir með skallamarki á 17. mínútu og átta mínútum síðar fengu Árborgarar vafasama vítaspyrnu sem Ingi Rafn Ingibergsson skoraði úr. Ingi Rafn var svo aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar og staðan var 3-0 í hálfleik.

Árborg kláraði leikinn endanlega á fyrstu mínútum seinni hálfleiks. Sveinn Kristinn Símonarson kom þeim í 4-0 áður og skömmu síðar skoraði Kristinn Ásgeir Þorbergsson fimmta mark Árborgar. Eftir það fjaraði leikurinn snarlega út og Árborg vann öruggan 5-0 sigur. Árborg er í toppsæti riðils-1 í C-deildinni með 6 stig en þetta var fyrsti leikur Uppsveita sem er því stigalausir.

Rautt spjald og flautumark hjá Hamri
Það var mun meiri spenna í leik Úlfanna og Hamars á Framvellinum. Matthías Ramos Rocha kom Hamri yfir eftir fast leikatriði í fyrri hálfleik og staðan var 0-1 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var markalaus lengst af en í uppbótartímanum dró heldur betur til tíðinda. Þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Úlfarnir vítaspyrnu þegar Jón Bjarni Sigurðsson braut af sér í teignum og fékk að líta rauða spjaldið. Úlfarnir skoruðu úr spyrnunni en Hamarsmenn voru ekkert að spá í því, tóku miðju og upp úr henni þrumaði Przemyslaw Bielawski boltanum af löngu færi í netið með síðustu spyrnu leiksins og tryggði Hamri 1-2 sigur. Þetta var fyrsti leikur Hamars í riðli-4 í C-deildinni og hafa þeir 3 stig í 3. sæti riðilsins.

Í gærkvöldi heimsóttu Stokkseyringar svo Álftanes í hörkuleik, þar sem Álftanes skoraði eina mark leiksins átta mínútum fyrir leikslok, lokatölur 1-0. Stokkseyri er í 2. sæti riðils-6 í C-deildinni með 3 stig.

Fyrri greinTveimur skrefum á undan í lokin
Næsta grein„Viðtökurnar hafa farið langt fram úr okkar björtustu vonum“