Árborg vann mikilvæg stig – Markalaust á Stokkseyri

Haukur Ingi Gunnarsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann mikilvægan sigur á Hvíta riddaranum á útivelli í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborgarar eiga ennþá möguleika á sæti í úrslitakeppninni en urðu að sigra í kvöld. Það gekk eftir en Guðmundur Aðalsteinn Sveinsson kom Árborg yfir með þrumuskoti á 17. mínútu leiksins. Staðan var 0-1 í hálfleik en Haukur Ingi Gunnarsson innsiglaði 0-2 sigur Árborgar með góðu skallamarki á 78. mínútu.

Í kvöld mættust einnig Stokkseyri og Skautafélag Reykjavíkur í bráðfjörugum leik í B-riðli 4. deildarinnar á Stokkseyrarvelli. Þrátt fyrir góðar tilraunir beggja liða var leikurinn markalaus, lokatölur 0-0.

Árborg er í 4. sæti D-riðilsins með 17 stig og Stokkseyri er í 4. sæti B-riðilsins með 11 stig.

Fyrri greinAugnabliks einbeitingarleysi kostaði stig
Næsta grein„Heiður að vera í þessum hópi“