Árborg vann Mána – KFR steinlá

Árborg vann öruggan sigur á Mána í 4. deild karla í knattspyrnu í dag en KFR steinlá þegar liðið mætti Magna í 3. deildinni.

Árborg hefur ekki unnið leik í 4. deildinni síðan liðið lagði Mána á útivelli þann 30. maí síðastliðinn, og því voru stigin þrjú í dag kærkomin. Árborg hóf leikinn á stórsókn og eftir aðeins sjö mínútna leik höfðu bæði Hartmann Antonsson og Trausti Eiríksson skorað, 2-0. Árborg átti fyrri hálfleikinn frá A-Ö og áttu að skora fleiri mörk því liðið óð í færum.

Staðan var 2-0 í hálfleik en síðari hálfleikur var mun rólegri. Pálmi Þór Ásbergsson kom Árborg í 3-0 á 66. mínútu og Trausti skoraði svo sitt annað mark og fjórða mark Árborgar á 87. mínútu. Gestirnir klóruðu í bakkann í uppbótartíma og lokatölur urðu 4-1.

KFR heimsótti Magna á Grenivík í 3. deildinni í dag og þar komust heimamenn í 4-0 á 23. mínútna kafla í fyrri hálfleik. Hjörvar Sigurðsson minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 45. mínútu og staðan var 4-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik fóru hlutirnir að gerast á síðustu tíu mínútunum. Magni bætti við marki á 80. mínútu en fimm mínútum síðar var einum Magnamanni vísað af velli með rautt spjald.

Aron Þrastarson minnkaði muninn í 5-2 fyrir KFR á 90. mínútu en manni færri náðu heimamenn að skora tvö mörk í uppbótartíma og lokatölur urðu 7-2.

Fyrri greinGámaeiningar undir starfsfólk Reykjagarðs
Næsta greinReykur og drulla á Delludegi