Árborg vann grannaslaginn

Stokkseyri og Árborg áttust við í stórleik kvöldsins í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Stokkseyri í kvöld. Eftir hörkuleik hafði Árborg 1-3 sigur.

Stokkseyri fékk fyrsta færið á 5. mínútu þegar Einar Guðni Guðjónsson, markvörður Árborgar, varði aukaspyrnu frá Atla Rafni Viðarssyni yfir markið. Stokkseyri lék með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og sótti meira en Árborgarar refsuðu með marki í sinni fyrstu sókn á 9. mínútu leiksins.

Stokkseyringum mistókst þá að spila boltanum út úr vörninni, Arnar Freyr Óskarsson, náði honum og sendi fyrir markið þar sem Eyþór Gunnarsson, markvörður Stokkseyrar, hafði hendur á boltanum en missti hann fyrir fætur Hartmanns Antonssonar sem skoraði auðveldlega.

Stokkseyri hélt áfram að sækja meira en uppspil Árborgar gekk á sama tíma illa. Hurð skall nærri hælum í tvígang upp við mark Árborgar þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum en gestirnir björguðu þá tvívegis á ögurstundu eftir hornspyrnur Stokkseyringa.

Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks náðu Árborgarar að stilla sig af og áttu nokkrar álitlegar sóknir. Á 28. mínútu átti Hartmann skot rétt yfir mark Stokkseyrar og fimm mínútum síðar varði Eyþór vel frá Magnúsi Helga Sigurðssyni og boltinn fór í horn.

Uppúr hornspyrnunni skoraði Árborg annað mark sitt, boltinn barst út í teiginn á Lárus Hrafn Hallsson sem lét vaða að marki en Baldur Þór Elíasson fékk boltann í markteignum og stýrði honum laglega í netið. Síðasta færi fyrri hálfleiks var Árborgara á 41. mínútu en Arnar Freyr átti þá skalla rétt framhjá eftir fyrirgjöf frá Lárusi hægra megin. Mínútu síðar átti Árborg að fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd varnarmanns en Ólafur Jósefsson, dómari leiksins, kvaðst hafa blindast af kvöldsólinni og sá ekki atvikið. 0-2 í hálfleik.

Árborgarar voru ákveðnari í upphafi fyrri hálfleiks og strax á 47. mínútu fékk Magnús Helgi dauðafæri þegar Hartmann sendi fyrir markið en Magnús skaut yfir fyrir opnu marki. Magnús var aftur á ferðinni sjö mínútum síðar en Stokkseyringar bættu þá fyrir varnarmistök með því að renna sér fyrir boltann á síðustu stundu.

Á 57. mínútu tók Einar Guðni langt útspark frá marki Árborgar og boltinn barst á Magnús Helga sem potaði honum innfyrir. Þar kom Daníel Ingi Birgisson á ferðinni og stakk boltanum í fjærhornið, framhjá Eyþóri. 0-3.

Eftir þriðja mark Árborgar datt botninn nokkuð úr leiknum en eftir því sem lægði færðust Stokkseyringar nær marki Árborgar. Atli Rafn Viðarsson slapp einn innfyrir á 64. mínútu en Arnar Freyr hljóp hann uppi og bægði boltanum frá.

Á 73. mínútu stakk Logi Geir Þorláksson boltanum innfyrir vörn Stokkseyrar þar sem Ársæll Jónsson tók við honum en skot hans fór rétt framhjá. Strax í næstu sókn skaut Arnar Þór Ingólfsson rétt yfir mark Árborgar uppúr aukaspyrnu en Stokkseyringar færðust nær og á 81. mínútu fékk Björgvin Karl Guðmundsson frían skalla í vítateig Árborgar en boltinn fór beint á Einar Guðna. Skömmu síðar sýndu varamenn Árborgar aftur lipra takta þegar Jón Lárus Sigurðsson átti góða sendingu inn á Ársæl sem var kominn í úrvalsfæri en ákvað að senda á samherja í stað þess að skjóta og Stokkseyringar komust fyrir boltann.

Heimamenn minnkuðu síðan muninn á 87. mínútu þegar Andri Marteinsson átti frábæra sendingu inn á Björgvin sem var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lét vaða að marki og minnkaði muninn í 1-3.

Stokkseyringar þjörmuðu vel að Árborgurum undir lokin en á 89. mínútu tók Arnar Þór aukaspyrnu út á velli sem small í samskeytunum og á lokamínútunni átti Gunnar Valberg Pétursson hörkuskalla að marki en Einar Guðni flaug af stað og varði meistaralega í horn, alveg út við stöng. Uppúr hornspyrnunni fór boltinn í höndina á varnarmanni Árborgar innan teigs en eins og í fyrri hálfleik flautaði Ólafur ekki víti.

Þegar fyrri umferð A-riðils er lokið eru Árborgarar í 5. sæti riðilsins með 9 stig en Stokkseyri er í 7. sæti með 3 stig.


Fyrrum félagarnir úr Ægi, Ársæll Jónsson og Gunnar Valberg Pétursson, gáfu sér tíma til að stilla sér upp til myndatöku í miðjum leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinHamar og Ægir töpuðu
Næsta greinFrábær árangur hjá Ægisstelpum