Árborg vann grannaslaginn örugglega

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan 3-0 sigur á Stokkseyri þegar liðin mættust í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld á Selfossvelli.

Ingimar Helgi Finnsson kom Árborg yfir strax á 4. mínútu eftir klafs í vítateig Stokkseyrar. Eftir það voru Árborgarar meira með boltann, bæði lið fengu hálffæri en tókst ekki að skora. 1-0 í hálfleik.

Árborgarar stjórnuðu ferðinni stærstan hluta síðari hálfleiks og á 75. mínútu kom Guðmundur Sigurðsson þeim í 2-0 með skoti af stuttu færi. Á 88. mínútu innsiglaði Arnar Freyr Óskarsson sigur Árborgar með skoti utan vítateigs.

Árborg er í 2. sæti riðilsins með 6 stig þegar ein umferð er eftir en Stokkseyri er í 4. sæti með 3 stig. Árborg á ennþá möguleika á sigri í riðlinum með því að leggja Afríku örugglega í lokaumferðinni og treysta á að Stokkseyri sigri topplið Skínanda.