Árborg úr leik í bikarnum

Aron Freyr Margeirsson, markaskorari Árborgar, í baráttunni um boltann í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg er úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 1-3 tap gegn 3. deildarliði Kára frá Akranesi á gervigrasinu á Selfossi í dag.

Árborgarar voru á hælunum í upphafi leiks og gestirnir komust yfir strax á 3. mínútu. Káramenn bættu svo við tveimur mörkum til viðbótar í fyrri hálfleik og staðan var 0-3 í leikhléi.

Í seinni hálfleiknum slökuðu Káramenn á hápressunni og Árborg tók stjórn á leiknum. Mörkin létu þó á sér standa og á 75. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu en Ingi Rafn Ingibergsson skaut vel yfir markið. Í uppbótartímanum minnkaði Aron Freyr Margeirsson loks muninn eftir sendingu frá Kristni Sölva Sigurgeirssyni og þar við sat, lokatölur 1-3.

Mjólkurbikarinn heldur áfram á laugardag en þá mætast KFR og KH á Selfossvelli kl. 12 og Uppsveitir og KÁ á sama velli kl. 16. Selfyssingar heimsækja KFK í Fagralund kl. 14 og Ægir mætir Smára í Fífunni kl. 15.

Fyrri greinNáðu sér ekki almennilega í gang
Næsta greinMessað í ML og Bítlarnir með í anda