Árborg úr leik eftir hetjulega baráttu

Guðmundur Garðar Sigfússon og félagar hans í Árborg eru úr leik í bikarkeppninni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar er úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu en liðið féll úr leik í 32-liða úrslitum gegn Aftureldingu í kvöld.

Árborg, sem leikur í 4. deild, hefur vakið mikla athygli í bikarkeppninni í sumar, slegið út 3. deildarlið Augnabliks og 2. deildarlið Njarðvíkur. 1. deildarlið Aftureldingar var hins vegar of stór biti þrátt fyrir hetjulega baráttu Árborgar.

Afturelding var meira með boltann í fyrri hálfleik og fékk nokkur mjög góð færi, en Árborgarvörnin og Pétur Logi Pétursson í markinu héldu velli. Það var minna að frétta af sóknarleik Árborgar en á 7. mínútu slapp Árni Páll Pálsson innfyrir og var felldur en dómari leiksins valdi að veifa gula spjaldinu á leikmann Aftureldingar, frekar en því rauða.

Staðan var 0-0 í hálfleik en seinni hálfleikurinn hófst á stórsókn Aftureldingar sem náði að klára leikinn á tíu mínútna kafla. Fyrsta mark UMFA kom úr vítaspyrnu á 54. mínútu, fimm mínútum síðar varð Ívar Örn Kristjánsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark og á 63. mínútu kom þriðja mark Aftureldingar eftir snarpa sókn.

Leikurinn fjaraði nokkuð út eftir þetta, Árborgarar komust lítið áleiðis upp völlinn og náðu ekki að ógna marki heimamanna og lokatölur urðu 3-0.

Fyrri greinJákvæð rekstrarniðurstaða í Rangárþingi ytra
Næsta greinSelfyssingar komnir á blað