Árborg tók bronsið

Knattspyrnufélag Árborgar lagði KB 2-1 í leik um 3. sætið í 3. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik og Theodór Guðmundsson kom þeim yfir á 10. mínútu með laglegu marki. Árborgarar áttu nokkrar álitlegar sóknir eftir það og á 36. mínútu bætti Hartmann Antonsson við öðru marki Árborgar með föstu skoti utan úr teig.

Strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks átti Arnar Óskarsson bylmingsskot í þverslána á marki KB en segja má að það hafi verið það síðasta sem sást til Árborgar í leiknum. Gestirnir voru mun sterkari í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn á 64. mínútu eftir vandræðagang í vörn Árborgar.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins voru tilþrifalitlar og það eina markverða var að KB liðið fékk þrjú rauð spjöld á fjögurra mínútna kafla undir lokin, tvö fyrir brot og eitt fyrir kjaftbrúk.

Árborg varð því í 3. sæti deildarinnar en Tindastóll sigraði Dalvík/Reyni 0-1 í dag og er því deildarmeistari.