Árborg tapaði síðasta heimaleiknum

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði síðasta heimaleik sínum í 2. deild karla í dag þegar liðið tók á móti Hetti. Höttur sigraði 1-3 og tryggði sér sæti í 1. deild.

Árborgarar voru sterkari fyrsta hálftímann en á 31. mínútu fór Almir Cosic meiddur af velli og við það datt dampurinn nokkuð úr leik liðsins. Höttur komst yfir á 45. mínútu með marki úr skyndisókn en nokkrum sekúndum áður áttu Árborgarar að fá vítaspyrnu en dómari leiksins sleppti því að dæma.

Staðan var 0-1 í hálfleik en strax á 5. mínútu síðari hálfleiks jafnaði Jón Auðunn Sigurbergsson leikinn eftir baráttu í teig Hattar. Eftir jöfnunarmarkið skiptust liðin á að sækja án mikils árangurs en á 71. mínútu komust gestirnir yfir eftir aukaspyrnu og þóf inni á vítateig Árborgar. Gestirnir fengu svo annað dauðafæri áður en þriðja markið kom og var það einnig eftir aukaspyrnu úti á velli og lélega völdun í teig Árborgar.

Heimamenn bættu í sóknarleikinn á lokamínútunum og fengu ágæt færi en inn fór boltinn ekki og Hattarmenn fögnuðu sigri.