Árborg tapaði lokaleiknum

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði stórt þegar liðið mætti Aftureldingu í lokaumferð 2. deildar karla í Mosfellsbæ í dag. Lokatölur voru 5-1.

Jón Auðunn Sigurbergsson kom Árborg yfir strax á 8. mínútu en heimamenn jöfnuðu tæpum tíu mínútum síðar. Eftir það skiptust liðin á að sækja en fátt var um færi. Á 45. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu eftir skyndisókn og í kjölfar dómsins fékk Jón Auðunn rauða spjaldið fyrir kjaftbrúk. Afturelding skoraði úr spyrnunni og leiddi 2-1 í hálfleik.

Árborgarar voru sterkari aðilinn fyrstu 25 mínútur síðari hálfleiks en á 70. mínútu komst Afturelding í 3-1 og við það datt botninn úr leik Árborgar. Heimamenn gengu á lagið og bættu við tveimur mörkum á síðustu tíu mínútunum.

Árborg lauk keppni á sínu fyrsta ári í 2. deildinni í 11. sæti með 11 stig og leikur í 3. deildinni að ári.