Árborg tapaði í toppslagnum – KFR lá í Sandgerði

KFR og Árborg töpuðu leikjum sínum í 3. og 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. KFR heimsótti Reyni en Árborg mætti ÍH.

KFR er áfram í bullandi fallbaráttu í 3. deildinni eftir 3-2 tap gegn Reyni í Sandgerði í kvöld. Helgi Ármannsson kom KFR yfir á 3. mínútu en Reynir jafnaði á 10. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Reynismenn skoruðu tvívegis um miðjan seinni hálfleikinn en Hjörvar Sigurðsson náði að klóra í bakkann fyrir KFR í uppbótartíma þegar hann fylgdi eftir skoti Jóhanns Guðmundssonar. Lokatölur urðu 3-2.

KFR er með 13 stig í 7. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Víðir og Berserkir. Berserkir hafa lakasta markahlutfallið af þessum liðum og eru í fallsætinu. Álftanes er langneðst með 6 stig.

Árborgurum tókst ekki að skora
Leikur ÍH og Árborgar var í járnum framan af en töluverður vindur setti svip sinn á spilamennskuna. Heimamenn komust yfir á 24. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Árborgarar lentu svo 2-0 undir strax á 3. mínútu síðari hálfleiks og þrátt fyrir að ÍH missti mann af velli með rautt spjald á 55. mínútu tókst Árborg ekki að minnka muninn en liðið átti nokkrar ágætar marktilraunir.

ÍH bætti þriðja markinu við á 71. mínútu og tryggði sér 3-0 sigur og um leið toppsætið í A-riðlinum. Árborg er í 2. sæti og á eftir einn leik gegn botnliði Kónganna. Eins og staðan er núna þarf Árborg eitt stig úr þeim leik til að komast í úrslitakeppnina en Léttir á ennþá möguleika á 2. sætinu.

Fyrri greinAlda hreif þrennt með sér
Næsta greinLífræni dagurinn á Sólheimum