Árborg tamdi úlfinn

Árborg lagði Stál-úlf að velli í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 1-3 á útivelli.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir eftir tíu mínútna leik með marki Hartmanns Antonssonar eftir sendingu frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks þó að bæði lið hafi átt ágæt færi. Hartmann lokaði hálfleiknum með lúmsku skoti sem markvörður Stál-úlfs varði í þverslána og staðan var 0-1 í hálfleik.

Strax á 2. mínútu seinni hálfleiks sofnuðu Árborgarar á verðinum í vörninni og Stál-úlfur jafnaði. Mark heimaliðsins lagðist illa í Árborgara sem misstu tökin á leiknum í kjölfarið. Hvorugt liðið fékk teljandi færi en Árborgarar girtu sig í brók með góðri innkomu varamanna liðsins og skoruðu tvö mörk á síðustu tíu mínútum leiksins.

Þorsteinn Daníel kom Árborg í 1-2 á 84. mínútu eftir 70 metra langa stungusendingu frá Eiríki Elvy og tveimur mínútum síðar stökk Árni Páll Hafþórsson hæst í teignum og skallaði hornspyrnu frá Þorsteini í netið.