Árborg styrkti stöðu sína

Sigurður Óli skoraði tvö mörk fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar styrkti stöðu sína á toppi síns riðils í C-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborgarar heimsóttu Smára í Kópavoginn og unnu þar öruggan 0-6 sigur.

Sigurður Óli Guðjónsson kom Árborg á bragðið snemma leiks og Aron Freyr Margeirsson tvöfaldaði forskotið skömmu síðar. Sigurður Óli skoraði sitt annað mark um miðjan fyrri hálfleikinn og Kristinn Ásgeir Þorbergsson sá svo til þess að staðan væri 0-4 í hálfleik.

Ævar Már Viktorsson skoraði fimmta mark Árborgar í upphafi síðari hálfleiks og Tómas Orri Kjartansson innsiglaði svo 0-6 sigur Árborgar undir lokin með sínu fyrsta marki fyrir félagið, í sínum fyrsta leik.

Árborg er með 10 stig á toppi riðilsins og hefur þriggja stiga forskot á KFR en Rangæingar eiga leik til góða.

Fyrri greinFluttur með þyrlu eftir bílveltu á Kjalvegi
Næsta greinLögreglan æfir með sérsveitinni og sjúkraflutningum