Árborg styrkir handboltann með miðakaupum

Handboltinn er spilaður fyrir luktum dyrum á Selfossi í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á dögunum að veita handknattleiksdeild Selfoss viðspyrnustyrk vegna fjárhagsstöðu deildarinnar í kórónuveirufaraldrinum.

Þannig mun sveitarfélagið kaupa 285 miða á alla heimaleiki Selfoss í Olísdeild karla og Grill66 deild kvenna eftir áramót, þar sem þátttaka áhorfenda skerðist vegna samkomutakmarkana. Styrkurinn nemur því 570 þúsund krónum fyrir hvern leik.

Kvennaliðið hefur þegar leikið tvo heimaleiki á þessu ári með takmörkuðum áhorfendafjölda. Fyrsti heimaleikur karlaliðsins á þessu ári er þann 13. febrúar. Óvíst er hvenær takmörkunum verður aflétt en liðin eiga níu heimaleiki eftir fram á vor, áður en kemur að úrslitakeppninni. Verði áhorfendafjöldi takmarkaður fram á vor gæti styrkur sveitarfélagsins numið 5-8 milljónum króna.

Fyrri greinJanus Daði einnig smitaður
Næsta greinÍþróttamaður ársins setti upp sýningu