Árborg steinlá heima

Knattspyrnufélag Árborgar er áfram í neðsta sæti 2. deildar karla en liðið tapaði heima í kvöld gegn Njarðvík, 0-4.

Leikurinn var jafn fyrstu tuttugu mínúturnar og Árborgarar fengu fyrsta færi leiksins strax á þriðju mínútu þegar Eiríkur Elvy komst óvaldaður í gott skotfæri í vítateig Njarðvíkur en hitti boltann illa.

Bæði lið fengu hálffæri eftir þetta en Einar Árnason braut ísinn fyrir Njarðvík á 24. mínútu með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu og klafs í teignum. Njarðvíkingar sóttu í sig veðrið eftir markið og komust í 0-2 á 35. mínútu með öðru marki frá Einari, nú eftir hornspyrnu. Njarðvíkingar voru nálægt því að bæta við þriðja markinu fyrir hlé þegar Ólafur Jónsson átti hörkuskalla í þverslána á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Staðan var 0-2 í hálfleik og Njarðvíkingar mættu sprækari til leiks í seinni hálfleik. Þriðja mark þeirra kom eftir skyndisókn á 55. mínútu og þar var Ólafur að verki með skot af stuttu færi. Eftir þriðja markið féllu Njarðvíkingar aftar á völlinn og áttu ágætar skyndisóknir en Árborgarliðið var meira með boltann og sýndi ágæt tilþrif á miðsvæðinu en ekkert gerðist upp við mark Njarðvíkur. Gestirnir skoruðu svo fjórða markið á 70. mínútu og þar var Ólafur aftur á ferðinni og á síðustu tuttugu mínútunum voru Njarðvíkingar nær því að bæta við heldur en Árborgarar að minnka muninn.

Fyrri greinSigurmarkið á síðustu stundu
Næsta greinReynir jafnaði í blálokin