Árborg steinlá fyrir norðan

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði 5-2 þegar liðið mætti Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar á Ólafsfirði í dag.

Heimamenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 2-0 í leikhléi. Þeir komust síðan í 4-0 snemma í seinni hálfleik áður en Almir Cosic minnkaði muninn fyrir Árborg með marki úr vítaspyrnu.

Heimamenn komust fljótlega í 5-1 en Almir minnkaði muninn í 5-2 á lokamínútunum með skallamarki.

Árborg er í 11. sæti deildarinnar með 11 stig þegar tvær umferðir eru eftir en liðið er fallið í 3. deild.