Árborg sótti stig í sex marka leik

Andrés Karl Guðjónsson jafnaði fyrir Árborg í uppbótartíma. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar heimsótti topplið D-riðils 4. deildar karla, Knattspyrnufélagið Kríu, á Seltjarnarnesið í kvöld.

Fyrri hálfleikur var jafn og markalaus en seinni hálfleikurinn var heldur betur fjörugur. Kría komst yfir strax í upphafi hans en Aron Freyr Margeirsson jafnaði skömmu síðar eftir góða sendingu frá Magnúsi Hilmari Viktorssyni.

Ingi Rafn Ingibergsson kom Árborg svo í 1-2 á 70. mínútu í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Krían hélt áfram að gogga í hausinn á Árborgurum og svaraði fyrir sig með tveimur mörkum, á 76. og 79. mínútu. Árborgararliðið er hins vegar þekkt fyrir seiglu og á annarri mínútu uppbótartíma jafnaði varamaðurinn Andrés Karl Guðjónsson metin fyrir Árborg og niðurstaðan varð 3-3 jafntefli.

Jafnteflið dugði Kríu ekki til þess að halda toppsætinu. KH hrifsaði það til sín í kvöld en Kría fór niður í 3. sæti og Árborg er í 4. sæti riðilsins með 7 stig.

Fyrri greinLeitað að ökumanni bifreiðar
Næsta greinÖrugg leið að Litla-Hrauni