Árborg skoraði þrettán

Magnús Ingi Einarsson skoraði fimm mörk fyrir Árborg og Aron Freyr Margeirsson fjögur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar vann 13-0 sigur á Afríku í fyrsta leik liðsins á Íslandsmótinu í 4. deild karla í sumar.

Leikurinn var einstefna að marki Afríku í 90 mínútur en Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir eftir sex mínútna leik. Ingi Rafn Ingibergsson skoraði annað markið á 11. mínútu en það reyndist sögulegt því það var 1.000 mark Árborgar í öllum keppnum frá stofnun félagsins.

Magnús Ingi Einarsson skoraði þrennu á þrettán mínútum um miðjan fyrri hálfleikinn og Ingi Rafn skoraði svo sjötta mark Árborgar rétt fyrir leikhlé, 6-0 í hálfleik.

Markaregnið hélt áfram í seinni hálfleik. Magnús Ingi og Aron Freyr skoruðu til skiptis og komu Árborg í 10-0 um miðjan seinni hálfleikinn og á lokakaflanum bættu Haukur Ingi Gunnarsson og Hartmann Antonsson við mörkum, ásamt því að Aron Freyr skoraði sitt fjórða mark. Lokatölur 13-0.

Magnús Ingi varð markahæstur Árborgara í leiknum með fimm mörk og Aron Freyr skoraði fjögur.

Fyrri greinHamar-Þór í sumarfrí
Næsta greinMenam opnar í mathöllinni