Árborg skoraði ellefu mörk

Knattspyrnufélag Árborgar vann næsta öruggan sigur á Afríku þegar liðin mættust á Selfossvelli í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 11-0.

Arnar Freyr Óskarsson og Tómas Kjartansson komu Árborg í 2-0 á fyrstu sjö mínútum leiksins. Heimamenn sóttu allan leikinn, og Afríka fékk eitt dauðafæri á 90 mínútna kafla, en Axel Sæmundsson varði vel í marki Árborgar.

Árborg bætti svo við fjórum mörkum á síðasta korterinu í fyrri hálfleik og þar voru að verki Magnús Helgi Sigurðsson, Tómas Kjartansson með sitt annað mark, Sindri Rúnarsson og Hartmann Antonsson.

Staðan 6-0 í hálfleik og síðari hálfleikurinn var aðeins sjö mínútna gamall þegar Guðmundur Karl Eiríksson bætti sjöunda markinu við, en hann kom inná sem varamaður í hálfleik.

Sindri Rúnarsson bætti við öðru marki sínu á 68. mínútu og Árborgarar gerðu svo endanlega út um leikinn með þremur mörkum á þriggja mínútna kafla, á 75.-78. mínútu. Gunnar Bjarni Oddsson skoraði tvívegis og Guðmundur Karl bætti við öðru marki sínu.

Árborg er í toppsæti A-riðils með fullt hús stiga, 18 stig að loknum sex umferðum, en keppni í riðlinum er nú hálfnuð.

Fyrri grein„Þetta fer alveg að bresta á“
Næsta grein„Vorum ekki að spila sem lið“