Árborg skoraði átta mörk

Árborg vann stórsigur á GG í Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld og Ægir náði góðu stigi gegn Berserkjum.

Árborg mætti GG á Selfossvelli í toppslag og þar kom munurinn fljótlega í ljós. Árborg skoraði tvisvar á fyrsta korterinu en þar voru Eyþór Helgi Birgisson og Aron Freyr Margeirsson að verki. Eyþór Helgi og Arilíus Óskarsson skoruðu svo sitthvort markið með 60 sekúndna millibili í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var 4-0 í leikhléi.

Yfirburðir Árborgar héldu áfram í seinni hálfleik og GG átti mjög fáar marktilraunir. Aron Freyr bætti við frábæru marki á 56. mínútu þegar hann sólaði hvern andstæðinginn af fætur öðrum frá miðju upp að vítateig þar sem hann lét vaða í netið. Á lokakaflanum kom Pelle Damby Carøe ferskur inná hjá Árborg. Daninn knái skoraði gott mark á 73. mínútu og lagði svo upp annað fyrir Óttar Guðlaugsson á 82. mínútu. Hartmann Antonsson rak svo smiðshöggið á 8-0 sigur Árborgar á 88. mínútu.

Árborg er í efsta sæti riðils-3 í C-deildinni og á sæti í úrslitakeppninni nokkuð víst. Liðið er með 12 stig í efsta sæti en þar á eftir kemur Snæfell/UDN með 9 stig og leik til góða. Markahlutfall Árborgar er mun betra og þarf Snæfell/UDN að vinna Álafoss í lokaumferðinni á morgun með 21 marks mun, ætli þeir sér að ná toppsætinu af Árborg.

Ægismenn sterkir á lokakaflanum
Það blés ekki byrlega hjá Ægismönnum í fyrri hálfleik gegn Berserkjum í B-deildinni í kvöld. Liðin mættust á Víkingsvellinum í Fossvogi og heimamenn komust yfir á 14. mínútu. Arilíus Marteinsson jafnaði úr vítaspyrnu tæpum tíu mínútum síðar en Berserkir skoruðu tvö mörk á lokakafla fyrri hálfleiks og leiddu 3-1 í leikhléi. Það var hart barist í síðari hálfleiknum en Ægismenn voru seigir og náðu að jafna metin á síðustu tíu mínútunum. Gunnar Bent Helgason minnkaði muninn í 3-2 á 81. mínútu og hann var aftur að verki í uppbótartímanum. Lokatölur 3-3.

Þetta var síðasti leikur Ægis í riðlinum en liðið lauk keppni í 5. sæti með 4 stig en Berserkir á botninum með 1 stig.

Fyrri greinLokun framlengd um sjö vikur á Skógaheiði
Næsta grein„Spennt að opna Krónuna á þessu svæði“