Árborg örugglega í úrslitin

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði og lagði upp í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik deildarbikarsins í C-deild með öruggum sigri á Knattspyrnufélaginu Ásvöllum á útivelli í Hafnarfirði.

Eins og stundum áður þá blés hressilega á Ásvöllum en Árborgarar höfðu litlar áhyggjur af því og voru komnir í 0-3 eftir tuttugu mínútna leik. Aron Freyr Margeirsson kom þeim yfir snemma og á eftir fylgdu mörk frá Þormari Elvarssyni og Sigurði Óla Guðjónssyni.

Kristinn Ásgeir Þorbergsson lagði upp sjálfsmark KÁ manna rétt fyrir leikhlé svo að Árborg leiddi 0-4 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var aðeins rólegri. KÁ menn fengu vítaspyrnu á 64. mínútu en maður leiksins, Stefán Blær Jóhannsson, markvörður Árborgar, varði spyrnuna. Kristinn Ásgeir innsiglaði svo 0-5 sigur Árborgar með góðu marki korteri fyrir leikslok.

Það kemur í ljós síðar í kvöld hvort Árborg mætir Ými eða Kríu í úrslitaleiknum sem spilaður verður 1. maí.

Fyrri greinHamar mætir Aftureldingu í úrslitum Íslandsmótsins
Næsta greinJón Gnarr heimsótti Selfyssinga