Árborg og Stokkseyri töpuðu

Árborg og Stokkseyri töpuðu leikjum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í mark andstæðinganna.

Árborg tók á móti Álftanesi á Selfossvelli. Fyrri hálfleikur var markalaus og tíðindalítill en þegar leið á seinni hálfleikinn opnaðist leikurinn og Árborgarar áttu ágæt færi áður en gestirnir komust yfir á 78. mínútu. Undir lokin færðu Árborgarar sig framar á völlinn en fengu þá mark í bakið á 90. mínútu og lokatölur urðu 0-2.

Stokkseyringar sóttu topplið KFG heim í Garðabæinn og þar var fyrri hálfleikurinn sömuleiðis markalaus. Heimamenn skoruðu hins vegar fjögur mörk á tólf mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks og gerðu þar með út um leikinn. KFG bætti við mörkum á 75. og 82. mínútu og lokatölur urðu 6-0.

Stokkseyri og Árborg eru í 6. og 7. sæti A-riðils 4. deildar og mætast í innbyrðis leik á Stokkseyri næstkomandi þriðjudagskvöld en þá lýkur fyrri umferð deildarinnar.

Fyrri greinAnnir hjá Selfosslöggunni
Næsta greinMiðasala á aukatónleika hefst í dag