Árborg og Laugdælir sigruðu

Úrslitakeppni 2. deildar karla í körfuknattleik hófst í kvöld. Árborg og Laugdælir sigruðu í fyrstu leikjum sínum í keppninni.

Í fyrsta leik keppninnar léku Laugdælir gegn HK og unnu tiltölulega auðveldan sigur, 71-50. HK skoraði tvær fyrstu körfur leiksins en þá tóku Laugdælir við sér og sigldu framúr. Staðan í hálfleik var 38-31. Laugdælir sýndu mátt sinn og megin í síðari hálfleik og unnu að lokum með 21 stigi. Sigurður Orri Hafþórsson var stigahæstur Laugdæla með 18 stig og Snorri Þorvaldsson skoraði 10.

Árborg vann sannfærandi sigur á ÍBV, 90-72. Árborgarar leiddu allan leikinn en staðan í hálfleik var 51-32. Bragi Bjarnason var stigahæstur hjá Árborg með 21 stig, Jóhannes Bjarmi Skarphéðinsson skoraði 20, Björn Kristinn Pálmarsson 10 líkt og Arnþór Tryggvason sem einnig tók 10 fráköst.

Á morgun mætast Árborg og ÍG í Iðu kl. 10 og á hádegi leika Laugdælir við Félag Litháa í Vallaskóla. Kl. 17 leika Laugdælir og Leiknir í Vallaskóla og á sama tíma mætast Álftanes og Árborg í Iðu.

Undanúrslitin eru á sunnudagsmorgun í Iðu og Vallaskóla og eftir hádegi á sunnudag er leikið um sæti. Úrslitaleikurinn fer fram í Iðu kl. 16 á sunnudag.