Árborg og KFR áfram í Lengjubikarnum

Helgi Valur Smárason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg tryggði sér sæti í undanúrslitum C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld og KFR tryggði sér sæti í umspili fyrir undanúrslitin. Bæði lið gerðu 3-3 jafntefli í leikjum kvöldsins.

KFR mætti Berserkjum/Mídasi á Selfossi. Rúnar Þorvaldsson skoraði tvívegis fyrir KFR í fyrri hálfleik en Berserkir/Mídas minnkuðu muninn á 39. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Berserkir jöfnuðu metin í upphafi seinni hálfleiks og komust síðan yfir í kjölfarið en í uppbótartímanum náði KFR að jafna með sjálfsmarki Berserkja.

Árborg sótti KB heim á Leiknisvöllinn í Breiðholti. KB komst í 2-0 um miðjan fyrri hálfleikinn en Trausti Rafn Björnsson og Aron Freyr Margeirsson jöfnuðu leikinn fyrir Árborg og staðan var 2-2 í hálfleik. Sigurður Óli Guðjónsson kom Árborg yfir á 60. mínútu en KB jafnaði fimm mínútum síðar og lokatölur leiksins urðu 3-3.

Þá var Hamar í heimsókn hjá Skautafélagi Reykjavíkur í Laugardalnum. Hamarsmenn áttu undir högg að sækja en SR skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleik og það fjórða í upphafi seinni hálfleiks. Sigurður Ísak Ævarsson minnkaði muninn í 4-1 um miðjan seinni hálfleikinn en SR átti síðasta orðið og lokatölur urðu 5-1.

KFR og Árborg unnu sína riðla og fara áfram í keppninni en Hamar er í 4. sæti riðils-4 og á einn leik eftir í riðlinum.

Fyrri greinUngmennaliðið á flugi gegn Þór
Næsta greinLárus framlengir til þriggja ára