Árborg og Hamar úr leik

Árborg og Hamar eru úr leik í úrslitakeppni 4. deildar karla í knattspyrnu. Árborg tapaði fyrir KH og Hamar féll út á dramatískan hátt gegn Hvíta riddaranum.

Hamar og Hvíti riddarinn gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum og leikurinn á Varmárvelli í dag byrjaði vel fyrir Hamar. Ágúst Örlaugur Magnússon kom þeim yfir með marki úr víti á 20. mínútu en Hvíti riddarinn jafnaði á 44. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Sverrir Þór Garðarsson kom Hamri aftur yfir á 62. mínútu en rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Riddarinn aftur. 2-2 jafntefli hefði dugað Hamri til að komast áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli en Hvíti riddarinn náði að gera út um þær vonir með sigurmarki í uppbótartíma. Lokatölur 3-2 og samtals 4-3 og Hamar sat eftir með sárt ennið.

Það var á brattann að sækja hjá Árborg sem tapaði fyrri leiknum gegn KH 1-3. Liðin mættust á Valsvelli í kvöld og Árborg hafði yfirhöndina framan af leik. Freyr Sigurjónsson kom Árborg yfir á 26. mínútu en KH jafnaði tíu mínútum fyrir leikhlé. Heimamenn skoruðu svo aftur í upphafi síðari hálfleiks og þá var útlitið orðið nokkuð svart fyrir Árborgara. Þeir sóttu þó eins og þeir gátu en fengu þriðja markið í bakið á 72. mínútu og þar með var sagan öll. Lokatölur 3-1 og samtals 6-2.