Árborg og Hamar sigruðu grannaslagina

Leikmenn Árborgar fagna sigurmarki Arons Freys Margeirssonar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var boðið upp á tvo grannaslagi í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Selfossvelli í gær. Árborg og KFR mættust í riðli-4 og Ægir og Hamar í riðli-5.

Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum í 0-1 á 40. mínútu með marki úr vítaspyrnu í leiknum gegn Árborg og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Hartmann Antonsson jafnaði metin fyrir Árborg á 60. mínútu og fimmtán mínútum síðar fékk Árborg vítaspyrnu. Aron Freyr Margeirsson fór á punktinn og skoraði sigurmarkið af öryggi.

Árborg er í 3. sæti riðilsins með 6 stig en KFR er í botnsætinu án stiga, þegar ein umferð er eftir.

Í leik Ægis og Hamars kom Pálmi Þór Ásbergsson Ægi yfir á 34. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Hamar jafnaði metin strax í upphafi seinni hálfleiks þegar Emanuel Nikpalj skoraði sjálfsmark. Bæði lið áttu álitlegar sóknir í seinni hálfleiknum en það var ekki fyrr en þremur mínútum fyrir leikslok að Hamarsmenn skoruðu sigurmarkið og var þar á ferðinni Atli Þór Jónasson.

Eftir þrjár umferðir er Hamar í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga en Ægir er í 4. sætinu með 1 stig.

Fyrri greinÚrslitin ráðast í oddaleik
Næsta grein4. flokkur Selfoss deildarmeistarar