Árborg og GOS í samstarf um uppbyggingu 18 holu golfvallar

Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Páll Sveinsson, formaður GOS og Hynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS við undirritun samningsins. Ljósmynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg og Golfklúbbur Selfoss undirrituðu í dag samstarfssamning vegna uppbyggingar 18 holu golfvallar á Svarfhólsvelli á Selfossi.

Samningurinn felur í sér að GOS taki að sér að sjá um framkvæmdir við stækkun Svarfhólsvallar á Selfossi upp í 18 holu golfvöll. Markmið uppbyggingarinnar er að byggja upp glæsilegan golfvöll sem geti tekið við stærstu mótum landsins ásamt því að umhverfi hans sé til fyrirmyndar og nýtist íbúum og gestum sem almennt afþreyingar og útivistarsvæði.

Sveitarfélagið Árborg greiðir samkvæmt samningnum kr. 150 milljónir króna til framkvæmdanna sem skiptast í tíu jafnar greiðslur næstu 10 árin. Framkvæmdin hefur verið hugsuð á eins umhverfisvænan hátt og kostur er en hönnuður vallarins, Edwin Roland, leggur mikla áherslu á umhverfismál í hönnuninni.

Golfklúbbur Selfoss hefur vaxið jafn og þétt undanfarin ár og með nýrri inniaðstöðu á Svarfhólsvelli er félagið komið með góða æfingaaðstöðu allt árið um kring. Félagið leggur ríka áherslu á umhverfismál í daglegum rekstri og kolefnisjafnar meðal annars með ræktun og umhirðu golfvallarins ásamt umhirðu knattspyrnuvalla í sveitarfélaginu.

Fyrri greinLandsliðsmarkvörður Indlands til Hamars
Næsta greinÞjónandi forysta