Árborg og Ægir úr leik í bikarnum

Stefan Dabetic. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg og Ægir eru úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir naum töp í 2. umferð keppninnar í dag en báðir leikirnir fóru fram á Selfossvelli.

Árborg tók á móti Árbæ og þar byrjuðu heimamenn betur. Sigurður Óli Guðjónsson kom þeim yfir á 23. mínútu en gestirnir úr Árbæ jöfnuðu metin á 30. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Seinni hálfleikur var markalaus allt þar til tíu mínútur voru eftir að Árbæingar komu knettinum í netið og reyndist það sigurmark leiksins.

Mörkin voru fleiri í leik Ægis og Hauka en Haukar skoruðu tvisvar með stuttu millibili í fyrri hálfleiknum og staðan var 0-2 í hálfleik. Ægismenn fengu vítaspyrnu þegar tæpt korter var liðið af seinni hálfleik og úr spyrnunni skoraði Sigurður Hrannar Þorsteinsson. Haukar komust í 1-3 um miðjan seinni hálfleikinn en Stefan Dabetic minnkaði muninn fyrir Ægi á 77. mínútu. Þrátt fyrir ágætar sóknir náðu Ægismenn ekki að jafna og Haukar tryggðu sér farseðilinn í 32-liða úrslitin.

Selfoss verður því eina sunnlenska liðið í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslitin á mánudaginn.

Fyrri greinSelfoss kom til baka og kláraði Kára
Næsta greinStór sinueldur í Tjarnabyggð