Árborg og Ægir úr leik

Árborg og Ægir féllu úr leik í Bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu í kvöld. Ægir tapaði 1-4 gegn Víkingi Ó en Árborg tapaði 7-8 gegn KB í vítaspyrnukeppni og bráðabana.

Leikur Árborgar og KB var mjög kaflaskiptur. KB komst í 0-1 á 30. mínútu en Ársæll Jónsson jafnaði leikinn á 39. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

KB komst yfir strax í upphafi seinni hálfleiks en Tómas Kjartansson jafnaði fyrir Árborg á 74. mínútu. Hann lagði síðan upp þriðja mark Árborgar sem Árni Páll Hafþórsson skoraði á 87. mínútu og allt stefndi í sigur Árborgar. KB gafst ekki upp á á 2. mínútu uppbótartíma jöfnuðu þeir 3-3.

Framlengingin var markalaus en bæði lið fengu færi til að skora. Því var gripið til vítaspyrnukeppni. Aron Leifsson, markvörður Árborgar varði tvær spyrnur og Guðmundur þjálfari Sigfússon hefði getað tryggt Árborg sigurinn en hann skaut framhjá í fimmtu spyrnu þeirra bláu. Í bráðabananum skoraði KB tvívegis örugglega en sjöunda spyrna Árborgar, sem Óskar Guðjónsson tók var varin nokkuð auðveldlega og leikurinn var úti.

Ægismenn voru lítil fyrirstaða fyrir Víking Ólafsvík. Víkingar leiddu 0-2 í leikhléi og komust í 0-4 á fyrsta korteri seinni hálfleiks. Á 66. mínútu minnkaði Arilíus Marteinsson muninn fyrir Ægi og reyndist það síðasta mark leiksins.

Fyrri greinFjölbreytt dagskrá á Vori í Árborg
Næsta greinHundar hittast í bæjargarðinum