Árborg missteig sig – ÍBU tapaði stórt

Brúnaþungur Eiríkur Raphael Elvy, þjálfari Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar tapaði óvænt fyrir botnliði KB á útivelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld og á sama tíma tapaði ÍBU fyrir ÍH á Flúðum.

Árborg heimsótti KB í Breiðholtið og þar komust heimamenn yfir strax á 6. mínútu. Staðan var orðin 2-0 eftir tuttugu mínútur en Ingi Rafn Ingibergsson og Ísak Eldjárn Tómasson náðu að jafna metin fyrir leikhlé og staðan var 2-2 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var spennandi og markalaus allt þar til í uppbótartíma að Árborgarar urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark og KB fagnaði sínum fyrsta sigri í sumar, 3-2. Árborg er í 3. sæti D-riðils með 10 stig en KB í 6. sæti með 4 stig.

ÍBU tók á móti toppliði ÍH og það var við ramman reip að draga fyrir Uppsveitamenn. ÍH komst yfir á 16. mínútu og tíu mínútum síðar var staðan orðin 0-2. ÍH bætti við þremur mörkum í síðari hálfleik án þess að Uppsveitir næðu að svara fyrir sig og lokatölur urðu 0-5. ÍH er í toppsæti A-riðilsins með 15 stig en Uppsveitir í 6. sæti með 6 stig.

Fyrri greinEllefu Selfyssingar í hópfimleikalandsliðum
Næsta greinGanga um Hvolsvöll með Ísólfi Gylfa