Árborg missteig sig heima

Kristinn Ásgeir Þorbergsson sækir að marki Kríu í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar missteig sig í toppbaráttu 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið fékk Kríu í heimsókn á Selfossvöll.

Kría goggaði frá sér í fyrri hálfleiknum og staðan var orðin 0-2 eftir sautján mínútna leik. Árborg sótti í sig veðrið í kjölfarið og á 32. mínútu fékk liðið vítaspyrnu eftir að brotið var á Kristni Ásgeiri Þorbergssyni. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Næstu mínútur voru ótrúlegar. Kría fékk tvær aukaspyrnur lengst úti á velli með tveggja mínútna millibili og skoraði úr þeim báðum. Staðan orðin 1-4 þegar flautað var til hálfleiks.

Árborg sótti allan seinni hálfleikinn og Kría flaug sjaldan framyfir miðju. Heimamenn fóru illa með færin og það var ekki fyrr en á áttundu mínútu uppbótartímans að Þorvarður Hjaltason kom boltanum í netið. Skömmu áður hafði Árborg fengið annað víti en Kristinn Ásgeir skaut yfir í þetta skiptið.

Árborg er í 3. sæti deildarinnar með 10 stig, þremur stigum á eftir toppliðum KÁ og KH og tveimur stigum á undan Kríu sem er í 4. sætinu.

Fyrri greinÖruggur sigur þegar upp var staðið
Næsta greinJón Þórarinn og Carlos verðlaunaðir