Árborg mætti Ísbirni í ham

Árborgarar lentu í kröppum dansi þegar Ísbjörninn kom í heimsókn á Selfossvöll í kvöld í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu.

Ísbjörninn hefur ekki safnað mörgum stigum á Íslandsmótinu í sumar, en hann var í ham í kvöld og sýndi tennurnar.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, Árborg sótti meira en Ísbjörninn varðist vel. Eftir því sem leið á leikinn þvarr þróttur Ísbjarnarins og Árborgarar gengu á lagið.

Ingvi Rafn Óskarsson skoraði úr vítaspyrnu á 58. mínútu og Aron Freyr Margeirsson bætti svo við góðu marki á 87. mínútu og tryggði Árborg 2-0 sigur. Á lokakafla leiksins dundu sóknirnar á vörn Ísbjarnarins, sem bjargaði tvívegis ótrúlega á línu, auk þess sem tréverkið fékk að finna fyrir því trekk í trekk.

Árborg er í 2. sæti riðilsins með 26 stig en Ísbjörninn er í næst neðsta sæti með 5 stig.

Fyrri greinKristín skipuð sýslumaður
Næsta greinNokkur verðlaun til HSK á Landsmótinu