Árborg mætir Tindastól

Árborg og Tindastóll eigast við í 4-liða úrslitum 3. deildar karla í knattspyrnu en Árborg lagði KFS 3-1 í kvöld og samtals 5-1.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik og fengu nokkur hættuleg færi áður en Jón Auðunn Sigurbergsson skoraði á 42. mínútu. Eyjamenn áttu sína spretti í fyrri hálfleik og Einar Andri Einarsson, markvörður Árborgar, varði einu sinni frábærlega langskot frá KFS.

Í síðari hálfleik voru Eyjamenn áræðnari enda þurftu þeir að skora þrjú mörk til að komast áfram. Árborg varð þó fyrri til að skora en Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði á 56. mínútu eftir klafs í vítateig KFS.

Sjö mínútum síðar fékk KFS vítaspyrnu á silfurfati eftir að boltinn hafði farið í hönd Guðbergs Baldurssonar inni í vítateig. Bjarni Rúnar Einarsson skoraði úr spyrnunni.

Eftir þetta skiptust liðin á að sækja en Árborg skoraði síðasta mark leiksins úr skyndisókn á 88. mínútu. Þar var að verki sundgarpurinn Árni Páll Hafþórsson.

Árborg sigraði samtals 5-1 í einvíginu og mætir Tindastól í 4-liða úrslitum. Fyrri leikur liðanna er á Selfossi kl. 14 en sá síðari á Sauðárkróki síðdegis á miðvikudag.

Bein textalýsing var hér á vefnum og má lesa hana hér.