Árborg lokaði sumrinu með sigri

Knattspyrnufélag Árborgar vann öruggan sigur á Skínanda í lokaumferð D-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.

Árborgarar byrjuðu leikinn af krafti og strax á 5. mínútu skoraði Trausti Eiríksson glæsilegt skallamark eftir fyrirgjöf Tómasar Kjartanssonar. Trausti slapp einn innfyrir skömmu síðar en markvörður gestanna varði skínandi vel.

Að fimmtán mínútum liðnum tóku Skínandamenn öll völd á vellinum og sóttu fast að marki Árborgar en vörn þeirra hvítu og Einar Guðni Guðjónsson markvörður stóðu vel fyrir sínu. Á 38. mínútu átti Tómas sláarskot fyrir Árborg en þrátt fyrir góðar tilraunir beggja liða var aðeins eitt mark skorað í fyrri hálfleik, 1-0 í leikhléi.

Á fyrstu mínútu síðari hálfleiks slapp Dr. Páll Óli Ólason einn innfyrir Skínandavörnina en markvörður gestanna varði glæsilega í horn. Trausti tók hornspyrnuna og hún rataði beint á kollinn á Ólafi Tryggva Pálssyni sem stangaði knöttinn í netið.

Árborgarar voru sterkari þegar leið á leikinn og á 75. mínútu skoraði Hartmann Antonsson mjög gott mark eftir að Tómas Kjartansson hafði tekið 65 metra sprett með boltann upp völlinn og sent fyrir markið. Aðeins tveimur mínútum síðar innsiglaði Guðmundur Karl Eiríksson 4-0 sigur Árborgar, aðeins einni mínútu eftir að hann kom inná sem varamaður.

Árborgarliðið var nær því að bæta við mörkum í lokin en Guðmundur Karl og Pelle Damby Carøe fengu báðir prýðisfæri undir lokin.

Niðurstaðan 4-0 sigur og með honum lyfti Árborg sér upp um tvö sæti og lýkur keppni í D-riðli 4. deildar með sextán stig en liðið vann fjóra leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði fjórum leikjum. Árborgarar tóku sig á undir lok móts eftir slæmt gengi um mitt sumar en liðið náði í tíu stig af tólf mögulegum í síðustu fjórum umferðunum.

Fyrri greinDjassað með sterkum litum
Næsta greinSéra Óskar skipaður í Hrunaprestakalli