Árborg vann gríðar mikilvægan sigur á Létti í 4. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Bæði lið fengu ágætis færi í fyrri hálfleik en Léttismenn voru heilt yfir sterkari. Þeim tókst þó ekki að koma boltanum í netið, en það gerði Reynir Freyr Sveinsson hins vegar fyrir Árborg, þegar hann skoraði laglegt mark uppúr hornspyrnu á 12. mínútu.
Staðan var 1-0 í hálfleik og í leikhléinu fékk Ingi Rafn Ingibergsson að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt, fyrir óljósar sakir.
Árborgarar hófu seinni hálfleikinn því manni færri, en létu það ekki á sig fá því Andrés Karl Guðjónsson skoraði glæsilegt mark eftir snarpa sókn strax í upphafi seinni hálfleiks og kom heimamönnum í 2-0. Eftir það lögðust Árborgarar í skotgrafirnar og vörðust fimlega en fengu þrátt fyrir það tvö dauðafæri á næstu mínútum. Um miðjan seinni hálfleikinn varð jafnt í liðum þegar leikmaður Léttis fékk rautt spjald fyrir að slá Magnús Hilmar Viktorsson en Árborgarar voru rólegir og héldu varnarskipulaginu áfram.
Enn fækkaði á vellinum á 86. mínútu þegar annar leikmaður Léttis fékk seinna gula og þar með rautt en níu á móti tíu tókst Léttismönnum að skora draumamark af 40 metra færi í uppbótartímanum og lokatölur urðu 2-1.
Með sigrinum lyftir Árborg sér upp í 2. sæti C-riðilsins með 9 stig eftir fjórar umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Uppsveita.