Árborg lagði Mídas – Stokkseyri fékk skell

Árborg vann seiglusigur á Mídasi í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Stokkseyri fékk skell á móti Ými.

Árborg tók á móti Mídasi á Selfossvelli og þar dró til tíðinda strax á 4. mínútu þegar varnarmaður gestanna braut á Hartmanni Antonssyni sem var að sleppa innfyrir. Rautt spjald var niðurstaðan og Mídasarmenn því manni færri í 86 mínútur.

Þrátt fyrir að vera fleiri inni á vellinum fóru Árborgarar varlega inn í leikinn og gestirnir lögðu rútunni fyrir framan teiginn. Árborg komst yfir á 22. mínútu þegar Ísak Tómasson skaut að marki uppúr hornspyrnu og varnarmaður gestanna hreinsaði boltann í netið.

Gestirnir lágu aftarlega og reyndu að sækja hratt og það bar árangur fjórum mínútum síðar þegar Stefán Jóhannsson skoraði eftir skyndisókn.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Árborgarar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og sóttu stíft. Hartmann Antonsson kom Árborg aftur yfir með þrumuskoti á 62. mínútu og Guðmundur Karl Eiríksson innsiglaði 3-1 sigur Árborgar með marki á lokamínútunni eftir góðan sprett.

Stokkseyringum gekk ekki eins vel þegar þeir heimsóttu Ými í Kópavoginn. Ýmir skoraði tvö mörk um miðjan fyrri hálfleik og leiddi 2-0 í hálfleik. Heimamenn röðuðu svo inn mörkum í síðari hálfleik og lokatölur urðu 7-0.

Eftir leiki kvöldsins eru Árborgarar búnir að endurheimta toppsætið í riðlinum með 22 stig en Stokkseyri er áfram í 4. sæti með 11 stig.