Árborg kreisti fram jafntefli – enn tapar Hamar

Markaskorarinn Aron Freyr Margeirsson sækir að marki Vængja Júpíters í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg tók á móti Vængjum Júpíters í 4. deild karla í knattspyrnu í dag á sama tíma og Hamar heimsótti Elliða.

Árborgarar byrjuðu betur á Selfossvelli og Aron Freyr Margeirsson kom þeim yfir á 12. mínútu. Árborgarar voru líklegri í kjölfarið en þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku Vængirnir leikinn yfir og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Það kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í leikhléi.

Strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks skoruðu Vængir úr vítaspyrnu en dómurinn fór verulega í taugarnar á Árborgurum sem voru lengi að jafna sig. Vængir voru líklegri til að bæta við og það var ekki fyrr en á lokamínútunum að Árborgar létu til sín taka aftur. Á þriðju mínútu uppbótartímans stangaði Adam Örn Sveinbjörnsson loks boltann í netið og tryggði Árborg eitt stig í 2-2 jafntefli.

Á Fylkisvelli í Árbæ mættust Elliði og Hamar. Rodrigo Depetris kom Hamri yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og reyndist það eina markið í fyrri hálfleik. Staðan var 1-0 allt þar til korter var eftir en þá fóru hlutirnir heldur betur að gerast. Elliði jafnaði á 76. mínútu og sex mínútum síðar voru heimamenn komnir yfir. Tomas Alassia jafnaði fyrir Hamar tveimur mínútum fyrir leikslok en Elliði átti síðasta orðið og þeim tókst að knýja fram sigurmark á 4. mínútu uppbótartímans. Lokatölur 3-2.

Staðan í deildinni er þannig að Árborg er í 4. sæti með 12 stig en Hamar er á botni deildarinnar með 1 stig.

Fyrri greinSvifvængjaslys í Reynisfjalli
Næsta greinFonsi sökkti toppliðinu með þrennu á níu mínútum