Árborg kom til baka og jafnaði

Kristinn Ásgeir Þorbergsson sækir að marki Elliða í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg tók á móti Elliða í 4. deild karla í knattspyrnu í hífandi roki á Selfossvelli í kvöld.

Veðrið bauð upp ekki upp á gæðaknattspyrnu en gestirnir voru til í slaginn og þeir skoruðu tvívegis á fyrstu níu mínútum leiksins. Árborgarar voru slegnir út af laginu og Elliði hafði undirtökin allan fyrri hálfleikinn. Heimamenn fengu þó vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks og úr henni skoraði Kristinn Ásgeir Þorbergsson af öryggi, 1-2 í hálfleik.

Leikurinn snerist í seinni hálfleiknum, Árborgarar sóttu stíft og leituðu að jöfnunarmarkinu en varð ekki ágengt. Jóhann Karl Ásgeirsson, markvörður Elliða, hélt sínum mönnum inni í leiknum en hann kom engum vörnum við á 78. mínútu þegar Aron Freyr Margeirsson kom knettinum loksins yfir línuna og jafnaði 2-2.

Árborg átti hættulegri færi á lokakaflanum en fleiri urðu mörkin ekki og liðin skiptu með sér stigunum.

Árborg er í 3. sæti deildarinnar með 7 stig en Elliði er í 5. sæti með 4 stig.

Fyrri greinTekin verði upp utanríkisstefna ESB
Næsta greinHvað er undir yfirborðinu í Skálholti?